Sími: 868-5555
Hafðu samband | Stjórnun ehf. - Ráðgjöf og bókhald
2. Myndun leiðbeinandi bandalags John P. Kotter

Afgerandi breytingar eiga sér oft stað í skjóli eins mjög áberandi einstaklings. Hins vegar er ferli slíkra breytinga það flókið að þörf er gríðarlegrar orku til að viðhalda því. Enginn einstaklingur getur þróað framtíðarsýn, miðlað henni til stórs hóps manna, fjarlægt allar hindranir, skapað nauðsynlega smásigra og leitt og stjórnað fjölda breytingaaðgerða jafnframt því að inngreypa í menningu fyrirtækisins breytta sýn starfsmanna. Í veröld hægrar þróunar getur mikilhæfur stjórnandi komið á nauðsynlegum breytingum með einföldum aðgerðum en hins vegar er þörf annarra viðhorfa í síbreytilegu umhverfi nútímans. Kotter telur að eina lausnin við þessar aðstæður sé myndun teyma þar sem mikil áhersla sé lögð á samsetningu hópsins og innbyrðis traust. Slík teymi eru mun öflugri í samsöfnun nauðsynlegra upplýsinga á skömmum tíma og einnig geta þau hraðað innleiðingu nýrrar sýnar því öflugir einstaklingar eru vel upplýstir og trúaðir á lykilákvarðanir. Við breytingastjórnun hættir mönnum stundum til að hlaupa yfir þetta stig teymismyndunar í viðleitni til að hraða ferli breytinga. Hins vegar verður að líta á ferlið sem samfellu þar sem allir þættir eru ómissandi. Við samsetningu teymisins er nauðsynlegt að gæta að stöðuvaldi aðila, sérfræðikunnáttu, trúverðugleika og leiðtogahæfileikum. Þrátt fyrir mikilvægi það sem Kotter leggur á leiðtogann er einnig þörf fyrir hefðbundinn stjórnanda í teymisvinnunni. Hefðbundni stjórnandinn hefur stjórn á ferlinu og skipuleggur aðgerðir. Hins vegar er leiðtoginn drifkraftur breytinga og hann skapar framtíðarsýn hópsins. Saman mynda þeir öfluga heild og er breytingastjórnun dæmd til að mistakast ef annan hvorn vantar inn í teymið. Kotter varar mjög við einstaklingum með útbelgda sjálfsmynd og þeim sem spilla samkennd og innbyrðis trausti teymisins. Þannig segir hann að snjallir breytingastjórar þurfi að búa yfir eiginleikum til að koma auga á slíka einstaklinga og halda þeim utan teymisins. Traust er bráðnauðsynlegt til virkrar teymisvinnu og eru ýmsar leiðir svo sem óbyggðaferðir færar til að byggja upp innbyrðis traust teymisins. Fyrir utan innbyrðis traust er mikilvægasti þáttur teymisvinnu að meðlimir hafi að sameiginlegu markmiði að stefna.