Sími: 868-5555
Hafðu samband | Stjórnun ehf. - Ráðgjöf og bókhald
5. Valdstyrking á breiðum grunni John P. Kotter

Þegar breytingaleiðtogi hefur miðlað framtíðarsýninni til allra hlutaðeigandi aðila er næsta skref að virkja sem flesta til framgangs sameiginlegrar framtíðar. Skipulagsbreytingar innan fyrirtækja eru bein afleiðing síbreytilegs viðskiptaumhverfis þeirra og er valddreifing einn allra mikilvægasti þáttur slíkra skipulagsbreytinga. Hins vegar eru í öllum fyrirtækjum þættir sem veita breytingum svo sem valddreifingu viðnám. Þeirra á meðal má nefna að formlegt skipulag fyrirtækisins auðveldar ekki valddreifingu og þekking og geta starfsmanna er af skornum skammti. Einnig nefnir Kotter til sögunnar að yfirmenn draga úr aðgerðum sem stuðla að innleiðingu nýrrar framtíðarsýnar. Markmiðið með þessu fimmta stigi breytingastjórnunar Kotters er að efla breiðan grunn starfsmanna til virkra aðgerða með því að fjarlægja eins mikið af hindrunum og mögulegt er. Hætta er á að ef hindranir formlegs skipulags eru ekki fjarlægðar tímanlega verði starfsmenn það ergilegir yfir kerfislegum þröskuldum að það drepi áhuga þeirra á aðgerðum til umbreytinga. Ef geta eða þekking starfsmanna er ekki á nægilega háu stigi er nauðsynlegt að bregðast við með þjálfun af hálfu fyrirtækisins. Þjálfun þarf að vera af réttum toga, í réttu magni og veitt á réttum tíma. Þjálfa þarf fólk bæði í tæknilegu tilliti sem og félagslegu því þær venjur sem fólk er búið að koma sér upp á margra ára tímabili þarf að sveigja að framtíðarsýn fyrirtækisins. Þannig er viðhorfsþjálfun starfsmanna ekki síður mikilvæg en lærdómur á tæki og tól. Markmið með þjálfun starfsmanna ætti fyrst og fremst að vera að gera þá betur í stakk búna til að takast á við margbreytileg verkefni starfs síns. Vaxandi fjöldi fyrirtækja eru að uppgötva hvernig þau geta nýtt hinn ótrúlega kraft sem býr í starfsfólki þess til að bæta rekstrarlega frammistöðu. Þau geta virkjað stóraukinn fjölda starfsmanna til leiðtogastarfa út um allt fyrirtækið og með því auðveldað nauðsynlegar breytingar. Hins vegar má ekki gleyma mannlega þættinum í allri þessari vinnu og mjög hvetjandi í öllu ferlinu er að sjá árangur erfiðis síns innan ekki allt of langs tíma.