Sími: 868-5555
Hafðu samband | Stjórnun ehf. - Ráðgjöf og bókhald
Trait approach Ýmsar nálganir stjórnunaraðferða

Samkvæmt nálgun eðlisþáttastjórnunar (e. trait approach) er því trúað að fólk sé fætt með ákveðna eðlisþætti sem ákvarði möguleika þess til framtíðar og aðeins mikilmenni á mælikvarða eðlisþátta geti orðið leiðtogar. Þessi kenning lifir enn góðu lífi þó svo hún blandist saman við aðrar seinni tíma nálganir.

Einn helsti kennismiður nálgunarinnar er R.M. Stodgill. Árið 1948 kom hann fram með þá kenningu að ekkert fastmótað kerfi eðlisþátta greindi leiðtoga frá öðrum í miklum fjölda aðstæðna. Einstaklingur með eðlisþætti leiðtoga sem væri leiðtogi við ákveðnar aðstæður væri það hugsanlega ekki við aðrar. Fyrsta könnun hans greindi hóp mikilvægra eðlisþátta leiðtoga sem voru tengdir því hvernig einstaklingar í mismunandi hópum urðu leiðtogar. Niðurstöðurnar sýndu að meðal einstaklingurinn í forystuhlutverkum er aðgreindur frá meðal einstaklingi hópsins hvað varðar gáfur, árvekni, innsæi, viðbragð, frumkvæði, staðfestu, sjálfstraust og félagsfærni. Einkenni náðarvalds voru þannig sterklega tengd við skynjun einstaklingsins á leiðtoganum. Þessi könnun Stodgill benti einnig til að einstaklingur verður ekki leiðtogi eingöngu af þeirri ástæðu að hann búi yfir ákveðnum eðlisþáttum. Frekar má líta svo á að þeir eðlisþættir sem leiðtoginn býr yfir þurfa að vera viðeigandi fyrir þær aðstæður sem hann starfar í. Bæði persónuleikinn og aðstæður eru því ákvarðandi þættir um forystu.

Nálgunin veltir eingöngu fyrir sér leiðtoganum en ekki fylgjendum hans eða aðstæðum. Hér er það leiðtoginn og hans eða hennar persónuleiki sem er miðdepill alls. Samkvæmt henni geta skipulagsheildir sérgreint þá persónueðlisþætti sem eru þeim mikilvægir við ákveðnar aðstæður og síðan notað persónuleikamat til að ákvarða hvort tiltekinn einstaklingur passar inn í myndina. Stjórnendur geta metið eigin eðlisþætti til að ákvarða hvar þeir standi samkeppnislega og í kjölfarið reynt að styrkja áhrif kraftminni eðlisþátta með því að breyta breyta starfsumhverfi sínu.

Einn helsti styrkleiki nálgunarinnar er að ímynd leiðtoga í fjölmiðlum og út um þjóðfélagið í heild sinni er að þeir séu sérstök tegund fólks – fólk með sérgáfur. Annar styrkleiki er að hún byggir á rannsóknum heillar aldar og síðast en ekki síst er mikill styrkur í nálguninni þar sem hún hefur sýnt einstaklingum fram á nokkra lykilþætti til að leita eftir vili þeir verða leiðtogar.

Nálgunin hefur talsvert verið gagnrýnd. Hún afmarkar ákveðinn hóp mikilvægustu eðlisþátta leiðtoga og tekur ekkert tillit til aðstæðna sem vissulega eru hluti af forystu. Rannsóknum á eðlisþáttum hefur mistekist að líta á þá í tengslum við árangur forystu og hafa þær heldur ekki fjallað um hvernig eðlisþættir leiðtoga hafa áhrif á meðlimi hópa og störf þeirra. Að lokum má gagnrýna að nálgunin gagnast ekki við þjálfun og þróun leiðtoga því hún gengur út á að eðlisþættirnir séu fastir og óbreytanlegir.