Sími: 868-5555
Hafðu samband | Stjórnun ehf. - Ráðgjöf og bókhald
Leiðir í stefnumiðun breytinga

Stefnumiðuð stjórnun innan fyrirtækja á að vera verkfæri stjórnenda. Eitt af mörgum í verkfærakistunni. Hún á ekki að vera í hlutverki biblíu, heldur eitt af mörgum tannhjólum. Markmiðið er bættur rekstur. Halda má fram að skólar stefnumótunar séu tíu. Það er rangt. Eða er það kannski rétt? Veldur hver á heldur. Sjónarhorn manna eru misjöfn og fyrirtæki eru misjöfn. Aðstæður innan mismunandi atvinnugreina eru misjafnar. Engum tveimur aðstæðum er hægt að jafna saman. Stefnumiðuð stjórnun er aðstæðnabundin. Hvaða leið hentar best? Hvað segir reynslan á vinnumarkaðnum? Stefnumótunarfræðin geta komið að góðum notum en þau standa ekki ein og sér undir miklum framförum. Framkvæmd stefnumótunar er langtímaverkefni og ekki síður mikilvæg en mótun hennar. Í Stefnumótun þarf að hafa innbyggðan sveigjanleika til að takast á við breyttar aðstæður. Engin stefnumótun getur séð við öllum mögulegum atburðarásum. Betur sjá augu en auga.

„Jafnvel þó að hlutlaus rannsakandi eigi auðvelt með að sjá að kostnaður fyrirtækis er of hár, framleiðsluvörur ekki nægilega góðar eða að ekki er komið til móts við breytilegar óskir viðskiptavina geta nauðsynlegar breytingar auðveldlega hikstað vegna menningar fyrirtækisins, lamandi skrifræðis, þröngsýnnar pólitíkur, lágs stigs á trausti, vöntunar á teymisvinnu, hrokafullra viðhorfa, leiðtogavöntunar á stigi millistjórnenda og almenns ótta manneskjunnar við hið óþekkta. Til að aðferð sem hönnuð er til að breyta stefnumörkun, endurhanna verkferla eða bæta gæðastjórnun sé árangursrík þarf hún að takast á við framangreindar hindranir“ (Kotter, 1996, bls. 20)

Stjórnun er í eðli sínu tengd þeim aðstæðum sem fyrirtæki búa við og það umhverfi hefur á undanförnum árum breyst með hraða sem engan hefði órað fyrir. Viðskiptaumhverfi fyrirtækja meginhluta nýliðinnar aldar var mun rólegra en það umhverfi sem við þeim blasir í dag og ekkert er sjáanlegt í kortunum sem bendir til rólegri tíðar í náinni framtíð. Við þessar aðstæður sífelldra breytinga og óvissu þurfa stjórnendur fyrirtækja að beita allt öðrum aðferðum en tíðkast hafa til skamms tíma. Við þessar grundvallarbreytingar fara stjórnendur í gegnum ferli lærdóms og aflærdóms. Ekki er raunhæft að búast við að svo afgerandi hugarfarsbreyting sem þörf er á eigi sér stað hjá stjórnendum í einu vetfangi en á undanförnum árum hefur skilningur á þörf fyrir nýja tegund stjórnunar vaxið hröðum skrefum. Ein þessara leiða er breytingastjórnun.