Sími: 868-5555
Hafðu samband | Stjórnun ehf. - Ráðgjöf og bókhald
Samkeppnisforskot byggt á kjarnafærni

Til langs tíma litið er samkeppnisforskot tilkomið vegna getu fyrirtækis til að byggja upp, við lægri kostnaði og hraðar en keppinautarnir, þá kjarnafærni sem er undirstaða nýrra afurða. Raunveruleg uppspretta stjórnunarfærni felst í getu stjórnenda til að draga saman um allt fyrirtækið ólíka tækni- og framleiðslufærni. Með þessu móti efla stjórnendur einstaka viðskiptaþætti til að aðlagast hratt breytilegum tækifærum í viðskiptaumhverfinu.

Kjarnafærni er uppsafnaður lærdómur innan fyrirtækisins og þá sérstaklega hvernig samræma eigi aðgreinda framleiðslufærni og innlima fjölda tæknistrauma. Kjarnafærni er boðmiðlun, þátttaka og djúp skuldbinding um að starfa þvert á mörk fyrirtækis og hún minnkar ekki við notkun heldur vex og dafnar. En færni þarf samt að næra og vernda því þekking fjarar út ef hún er ekki notuð. Ef kjarnafærni fyrirtækis er grundvallarauðlind þess þá þurfa yfirstjórnendur að tryggja að handhafar færninnar séu ekki haldnir í gíslingu t.d. einstakra deilda heldur sé þekking þeirra aðgengileg innan alls fyrirtækisins. Mjög mikilvæg er geta fyrirtækis til að innlima, byggja upp og endurúthluta innri og ytri færni til að mæta ört breytilegu umhverfi. Hún hefur verið nefnd kvik geta og endurspeglar getu fyrirtækisins til að öðlast ný og nýskapandi form samkeppnislegra yfirburða.

Í stjórnunarfræðunum fjallar svokölluð auðlindasýn um nýtingu fyrirtækis-sérstakra eigna. Getu fyrirtækis þarf að skilja, ekki á formi bókhaldsgagna heldur á formi uppbyggingar skipulagsheildar og stjórnunarlegra ferla sem styðja framleiðsluaðgerðir þess. Þær eignir sem eru fyrirtækis-sérstakar er ekki hægt að kaupa og selja nema með því að kaupa fyrirtækið sjálft eða eina eða fleiri deildir þess. Þessar eignir og sú sérstaka þekking sem í þeim felst er fyrirtækinu mjög mikilvæg í samkeppnislegu tilliti. Samkeppnislegt forskot fyrirtækis byggir á því á hversu árangursríkan máta það hefur aðgang að þekkingunni sem býr í mannauði þess og á hversu virkan máta það getur virkjað hana.

Í ört breytilegu viðskiptaumhverfi eru augljós verðmæti fólgin í getunni til að skynja þörf á endurstaðsetningu eigna fyrirtækisins og getunni til að framkvæma nauðsynlega innri og ytri flutninga getu. Getan til að endurstaðsetja og flytja er í sjálfu sér lærð geta fyrirtækis. Því oftar sem hún er ástunduð, því auðveldari. Áhrifarík stjórnun þeirrar þekkingar sem er grundvöllur samkeppnisforskots er grundvallarþáttur í rekstri fyrirtækja og ætti að hafa algeran forgang í verkefnavali og stefnumörkun. Í veröld sem stefnir hraðbyri að aukinni sérhæfingu, aukinni tæknivæðingu og auknu mikilvægi mannauðs sem auðlindar innan fyrirtækja er þekkingarstjórnun vissulega gagnleg nýjung og lykill að varanlegum samkeppnisyfirburðum fyrirtækja.