Sími: 868-5555
Hafðu samband | Stjórnun ehf. - Ráðgjöf og bókhald
Síbreytilegt viðskiptaumhverfi Framtíðarsýn

Stjórnun er í eðli sínu nátengd þeim aðstæðum sem fyrirtæki búa við og það umhverfi hefur á undanförnum árum breyst með hraða sem erfitt hefur reynst að spá fyrir um.

Viðskiptaumhverfi fyrirtækja meginhluta nýliðinnar aldar var mun rólegra en það umhverfi sem við þeim blasir í dag og ekkert er sjáanlegt í kortunum sem bendir til rólegri tíma í náinni framtíð. Við þessar aðstæður sífelldra breytinga og óvissu þurfa stjórnendur fyrirtækja að beita allt öðrum aðferðum en áður hafa tíðkast og verið miðlað til nemenda skipskiptaskóla til skamms tíma. Við þessar grundvallarbreytingar fara stjórnendur í gegnum ferli lærdóms og aflærdóms. Ekki er raunhæft að búast við að svo afgerandi hugarfarsbreyting sem þörf er á eigi sér stað hjá stjórnendum í einu vetfangi en á undanförnum árum hefur skilningur á þörf fyrir nýja tegund stjórnunar vaxið hröðum skrefum.

Einn mikilvægasti þátturinn í því að ná árangri í rekstri skipulagsheilda til lengri tíma er að byggja upp kröftuga framtíðarsýn (e. vision) og nýta hana til að virkja alla þátttakendur til hámarksáhuga sem aftur leiðir til hámarksafkasta. Þýðing öflugrar framtíðarsýnar hefur á undanförnum áratugum sífellt verið að koma betur í ljós á öllum sviðum rekstrar. Áherslan á framtíðarsýn sem megindrifhvata er í mikilli andstöðu við þær áherslur sem áður fyrr ríktu innan stjórnunar, þ.e. á síaukið eftirlit og nákvæma stjórnun og stýringu. Framtíðarsýnin er leiðbeinandi um allar athafnir starfsmanna og má nánast líta á hana sem leiðakort að réttri hegðun. Þróun og miðlun öflugrar framtíðarsýnar er eitt megin verkfæri leiðtoga í nútíma stjórnunarháttum. Hún felur það yfirleitt í sér að menn setja sér miklu metnaðarfyllri markmið en hefð er fyrir. Þessi markmið verka síðan sem öflugur hvati sem tryggir framúrskarandi virkjun allra starfsmanna. Of algengt er meðal forystumanna fyrirtækja að þeir týna sjálfum sér í erli daglegs amsturs. Þannig gleyma þeir að líta vítt yfir sviðið til að átta sig á hvort fyrirtækið er á réttri leið.