Sími: 868-5555
Hafðu samband | Stjórnun ehf. - Ráðgjöf og bókhald
Þekkingarstjórnun - samkeppnisyfirburðir Stjórnun þekkingar og mannauðs

Flestar rannsóknir sýna að mismunandi hagnaður fyrirtækja innan atvinnugreinar skiptir mun meira máli en mismunur milli atvinnugreina. Hagnaður af auðlindum og getu fyrirtækis veltur á tveimur megin þáttum: varanleika samkeppnislegra yfirburða og getu fyrirtækisins til að útdeila hagnaðinum af auðlindum þess. Til langs tíma litið hverfa bæði samkeppnislegir yfirburðir og hagnaður sem af þeim sprettur, bæði vegna þess að auðlindir og geta fyrirtækis fyrnast og vegna eftirhermunar samkeppnisaðila. Vegna þessara þátta hefur athygli manna beinst af stöðugt vaxandi þunga að uppsprettu samkeppnislegra yfirburða.

Með hliðsjón af auðlindasýn má greina fjóra þætti eða einkenni auðlinda og hæfni sem líklegir eru til að vera mjög mikilvægir til ákvörðunar að varanlegu samkeppnisforskoti.

  1. Varanleiki. Án samkeppni byggist varanleiki samkeppnislegra yfirburða fyrirtækis á þeim hraða sem undirliggjandi auðlindir og geta missa verðmæti sitt eða úreldast.
  2. Gagnsæi. Geta fyrirtækis til að viðhalda samkeppnisyfirburðum yfir lengri tíma er háð þeim hraða sem það tekur önnur fyrirtæki að herma eftir aðferðafræðinni.
  3. Flytjanleiki. Ef fyrirtæki geta öðlast þær auðlindir sem nauðsynlegar eru til að herma eftir samkeppnislegum yfirburðum keppinautar verða þeir ekki langlífir. Erfiðleikar við flutning eru tilkomnir vegna landfræðilegs óhreyfanleika, ófullkominna upplýsinga, fyrirtækis-sérhæfðra auðlinda og óhreyfanlegra auðlinda.
  4. Eftirlíkjanleiki. Sumar auðlindir og getu er auðveldlega hægt að herma með afritun. Mun erfiðara er að herma getu sem byggir á flóknum venjum skipulagsheilda.

Af framansögðu er ljóst að stjórnendum er mjög mikilvægt að hanna aðgerðaáætlun sem gerir sem allra mest úr þessum auðlindum og getu. Með hönnun stefnu utan um mikilvægustu auðlindirnar og getuna takmarkar fyrirtækið stefnusvið sitt við þau atriði þar sem það hefur greinilega samkeppnislega yfirburði. Til að ná viðvarandi samkeppnisyfirburðum þurfa fyrirtæki að viðhalda stöðugri þróun auðlindagrunna sinna.

Geta eða færni fyrirtækja byggir á því hvernir auðlindir þeirra vinna saman. Þessi miðlæga strategíska geta fyrirtækja hefur verið nefnd kjarnafærni (core competence). Viðfangsefnið er aö meta getu skipulagsheilda í samanburði við getu samkeppnisaðila. Það að skapa eða búa til getu/færni felst ekki eingöngu í því að safna saman einhverjum auðlindum. Til þess að útkoman verði samkeppnisforskot þá þurfa geta/færni að vera flókin blanda eða samspil milli mannauðsins og annarra auðlinda. Ef samþætta á eða samhæfa þessa hluta þá kallar það á það sem nefnt hefur verið lærdómur með endurtekningum.

Samkvæmt auðlindasýn eru fyrirtæki mjög misjöfn söfn áþreifanlegra og óáþreifanlegra eigna og getu. Þessar eignir og geta ákvarða á hversu árangursríkan máta fyrirtæki starfa. Samkeppnisyfirburðir, hvaðan sem þeir eru upprunnir, eru raktir til eignarhalds á mikilsverðum auðlindum sem auðvelda fyrirtæki að framkvæma aðgerðir betur eða ódýrar en samkeppnisaðilar þess. Yfirburða frammistaða mun því byggjast á þróun samkeppnislegra auðlinda og beitingu þeirra í góðri stefnumörkun. Hér að neðan má líta líkan auðlindasýnar að stefnumótun sem gefur nokkuð góða mynd af þeim stefnumótunarverkefnum sem mannauðsstjórar hafa á borðum sínum.

Líkan auðlindasýnar að stefnumótun
image001


Heimild: Zack, A resource-based approach to strategy analysis, bls. 4

Sé tekið mið af líkaninu hér að framan sést að þegar til lengri tíma er litið þá hvílir stefna fyrirtækja á tveimur grunnforsendum:

  • a. auðlindir og geta skapa grunnstefnu fyrir fyrirtæki
  • b. auðlindir og geta eru grundvallar uppsprettur hagnaðar fyrirtækja

Til langs tíma litið kemur samkeppnisforskot til vegna getu fyrirtækis til að byggja upp, við lægri kostnaði og hraðar en keppinautar, þá kjarnafærni sem undirbyggir nýjar afurðir. Raunveruleg uppspretta færni felst í getu stjórnenda til að draga saman um allt fyrirtækið tækni- og framleiðslufærni sem eflir einstaka atvinnuþætti til að aðlagast hratt breytilegum tækifærum. Þessi geta byggir á stjórnunarlegum ferlum og fyrirtækis ferlum sem mótaðir eru af staðsetningu sérstakra eigna fyrirtækisins og þeim brautum sem því eru aðgengilegar við stefnumótun. Með stjórnunarlegum ferlum og fyrirtækis ferlum er vísað til þess máta sem hlutir eru framkvæmdir í fyrirtækinu eða það sem mætti nefna venjur þess eða mynstur núverandi framkvæmda og lærdóms. Með staðsetningu er vísað til stöðu fyrirtækisins í tækni, vitsmunalegum eignum, stuðningseignum, hópi viðskiptavina og ytra samband þess við birgja og aðra. Með brautum er vísað til aðferðafræðilegra möguleika sem til staðar eru fyrir fyrirtækið og það hversu háð brautum fyrirtækið er.

Kjarnafærni er uppsafnaður lærdómur innan fyrirtækisins og þá sérstaklega hvernig samræma eigi aðgreinda framleiðslufærni og innlima fjölda tæknistrauma. Kjarnafærni er boðmiðlun, þátttaka og djúp skuldbinding um að starfa þvert á mörk fyrirtækis. Hún minnkar ekki við notkun. En færni þarf samt að næra og vernda því þekking fjarar út ef hún er ekki notuð. Ef kjarnafærni fyrirtækis er grundvallarauðlind þess þá þurfa yfirstjórnendur að tryggja að handhafar færninnar séu ekki haldnir í gíslingu t.d. einstakra deilda heldur sé þekking þeirra aðgengileg innan alls fyrirtækisins. Mjög mikilvæg er geta fyrirtækisins til að innlima, byggja upp og endurúthluta innri og ytri færni til að mæta ört breytilegu umhverfi. Hún hefur verið nefnd kvik geta og endurspeglar getu fyrirtækisins til að öðlast ný og nýskapandi form samkeppnislegra yfirburða.

Auðlindasýn fjallar um nýtingu fyrirtækis-sérstakra eigna. Fyrirtækis-getu þarf að skilja, ekki á formi bókhaldsgagna heldur á formi uppbyggingar skipulagsheildar og stjórnunarlegra ferla sem styðja framleiðsluaðgerðir. Þær eignir sem eru fyrirtækis-sérstakar er ekki hægt að kaupa og selja nema með því að kaupa fyrirtækið sjálft eða eina eða fleiri deildir þess. Þessar eignir og sú sérstaka þekking sem í þeim felst er fyrirtækinu mjög mikilvæg. Samkeppnislegt forskot byggir á því hversu árangursríkt fyrirtæki notar þá þekkingu sem býr í einstaklingum innan þess og eru þeir háðir getu fyrirtækisins til að hafa aðgang að þekkingunni og virkja hana.

Í ört breytilegu viðskiptaumhverfi eru augljós verðmæti fólgin í getunni til að skynja þörf á endurstaðsetningu eigna fyrirtækisins og getunni til að framkvæma nausynlega innri og ytri flutninga getu. Getan til að endurstaðsetja og flytja er í sjálfu sér lærð fyrirtækisgeta. Því oftar ástunduð, því auðveldari. Áhrifarík stjórnun þeirrar þekkingar sem er grundvöllur samkeppnisforskots er grundvallarþáttur í rekstri fyrirtækja og ætti að hafa algeran forgang í verkefnavali og stefnumörkun. Í veröld sem stefnir hraðbyri að aukinni sérhæfingu, aukinni tæknivæðingu og auknu mikilvægi mannauðs sem auðlindar innan fyrirtækja er þekkingarstjórnun vissulega gagnleg nýjung og lykill að varanlegum samkeppnisyfirburðum fyrirtækja.