Sími: 868-5555
Hafðu samband | Stjórnun ehf. - Ráðgjöf og bókhald
Virkjun heildrænnar þekkingar Stjórnun þekkingar og mannauðs

Takmarkanir einstaklings eru mun meiri en takmarkanir hóps. Þegar hópur einstaklinga starfar saman nást oft fram samlegðaráhrif sem skapa mun betri árangur en sem nemur samanlögðum árangri einstaklinganna. Mörg dæmi eru um slík samlegðaráhrif í mannlegum kerfum og eru hér sérstaklega tilnefnd fyrirtæki og aðrar skipulagsheildir (hér eftir skh.). Samsöfnuð þekking innan skh. er ólík þekkingu einstaklinga. Í verkefni þessu er athyglinni sérstaklega beint að samsafnaðri þekkingu og hún rædd út frá auðlindasýn þekkingar (resource-based view of knowledge). Hún felst í því að skh. marki sér ákveðna stefnu sem byggir á auðlindum þeirra og á þeirri hæfni sem þar er til staðar.

Vegna vaxandi breytingastigs í umhverfi skh. hefur sífellt betur komið í ljós að mannauðurinn er ein allra mikilvægasta auðlind þeirra. Því er virkjun mannauðsins til samkeppnislegra yfirburða mjög framarlega á forgangslista stjórnenda í dag. Til að ná því markmiði þarf að vera til staðar skilningur á hvernig samsöfnuð þekking skipulagsheilda er tilkomin og hvernig henni er viðhaldið.

Ljóst er að ekki dugar alltaf að stilla upp 7 góðum handknattleiksmönnum til að skapa gott handknattleikslið. Á sama máta er ekki gefið að hæfileikaríkir einstaklingar nái góðum árangri á samkeppnismarkaði með því einu að standa saman að fyrirtæki. Engin ástæða er til að halda því fram að skh. hafi mannlega getu eins og meðvitund, vitsmuni og tilfinningar, en hins vegar virðist augljóst að þær og starfsmenn þeirra hafa getu til lærdóms. Skh. lærir með því að binda tiltrú einstaklinga þegar þeir bregðast á áhrifaríkari máta við tilteknum aðstæðum heldur en samkvæmt fyrri tiltrú skh. Einstaklingar læra bæði af skh., þar sem þeir eru félagsverur, og af eigin reynslu, en skh. man í gegnum venjur hennar og staðlaða ferla.

Einstaklingurinn er ómeðvitaður um mikinn hluta þeirrar þekkingar sem hann beitir í félagslegu samhengi. Þannig er sú þekking sem nauðsynleg er til að skapa ákveðið og samræmt mynstur aðgerða annars konar en sú þekking sem einstaklingar geta nýtt við ákvarðanatöku sína. Skh. samanstanda af nokkrum mismunandi tegundum þekkingar. Mikið af henni er greinanleg og einstaklingsbundin en einnig er mikið af henni félagsleg í því samhengi að vera á stigi samþættingar og innbyggð í aðgerðir skh.

Einstaklingar innan skh. eiga í samskiptum sín á milli og má jafnvel líta á skh. sem mynstur hegðunar. Þannig kemur hver einstaklingur inn í hana með sínar samskiptavenjur og hegðanir og í samskiptum við aðra einstaklinga verður til nýtt svið hegðunar. Þessar viðbótarhegðanir eru félagslegar, sjálfsprottnar og óskipulagðar og þær vaxa eftir að einstaklingurinn byrjar að taka þátt í sameiginlegum aðgerðum. Líta má á þetta hegðunarmynstur sem menningu skh. og er hún líkleg til að vera óskýr og verði eingöngu ljós vegna aðgerða frekar en með skýrum greiningum.

Greina má þekkingu niður í meðvitaða, sjálfvirka og hlutgerða. Meðvituð þekking er sú sem hægt er að gera grein fyrir á skýran máta af einstaklingnum. Sjálfvirk þekking er sú sem einstaklingar virkja til sköpunar aðgerða en eru ófærir um að gera skilmerkilega grein fyrir. Þannig vita einstaklingar meira en þeir geta nefnt og sýna þá þekkingu með aðgerðum sínum. Hlutgerð þekking er sú sem er fyllilega skýranleg og dreifð um skh. Vísindaleg þekking er dæmi þar um en einnig gæti verið um staðbundnari þekkingu að ræða sem t.d. er bundin í reglum skh.

Gæði samræmingar milli auðlinda geta verið mjög mismikil og afrakstur þeirra því einnig misjafn. Þegar um samsafnaða þekkingu er að ræða er oft erfitt að skilgreina hvort skh. eða einstaklingarnir séu eigendur þekkingarinnar. Líta má á þekkinguna sem eign skh. þegar hún er skipulagsheildar- eða samhengis-sérstök og er náið tengd en ekki ákvörðuð af ríkjandi mynstri getu og auðlinda. Þróun og sjálfsprottnar aðgerðir sem byggjast á learning-by-doing skapa nýja færni og breyta þar með getu skh. til að nýta þekkingu sína. Á þessu sést að samsöfnuð þekking sem er skýr og innbyggð í aðgerðum skh. er því mikilvæg auðlind. Hún er skipulagsheildar-sérstök því hún er lausn innan frá við tilgreindum aðstæðum. Ólíklegt er að hún hafi gildi eða samhengi við aðrar skh. eða á öðrum tíma.

Til hámörkunar arðsemi er skh. mikilvægt að geta nýtt auðlindir sínar til fulls. Það felst m.a. í því að geta flutt þekkingu til innan skh. eftir því hvar hún nýtist best hverju sinni og flytja þekkingu milli skh. og umhverfis hennar. Aðgerðir skh. eru yfirleitt að hluta til tilteknar (explicit) þannig að sá hluti þekkingarinnar er auðveldlega færanlegur. Hins vegar er hluti þekkingarinnar ótiltekinn (implicit), lærður og munaður af athöfnum (by doing). Þar sem sú þekking samanstendur af færni einstaklinga og sjálfvirkri getu er helsta aðferðin sem hægt er að beita til að aðlaga hana nýju samhengi að færa einstaklingana er málið varðar. Ef aðgerðirnar eru raunverulega ótilteknar verða þær ófæranlegar. Jafnvel það að færa heilt teymi mistekst yfirleitt vegna breytinga í samhengi og innri uppbyggingar skh. sem styður fyrri aðgerðir.

Samsöfnuð þekking skh. er inngreypt í venjum þeirra. Stýring þekkingar felur í sér að kóða dulda (tacit) þekkingu yfir í tilteknar reglur og leiðbeiningar. Þar sem einkenni dulinnar þekkingar er að „einstaklingurinn veit meira en hann getur sagt“ felur umsnúningur dulinnar þekkingar yfir í tilgreinda þekkingu sem verður á formi reglna, stýringar, formúla, sérfræðikerfa o.s.frv. í sér töluverðan þekkingarmissi. Því dýpra sem venjur skh. eru inngreyptar því óljósara er hvaða mikilvægu ákvarðanir eru eftir fyrir stjórnanda til að taka.

Eitt mikilvæasta hlutverk stjórnenda skh. í náinni framtíð mun verða að öðlast stjórn á dulinni þekkingu. Vandinn við að kóða dulda þekkingu er hins vegar að þá er þekkingin einnig orðin aðgengilegri samkeppnisaðilum. Fyrst af öllu þurfa skh. að taka ákvörðun um hvaða þekkingu beri að vernda og hverja ekki. Ef öll þekking væri eftirhermanleg bæði hratt og án kostnaðar myndi engin skh. búa yfir einstökum eignum nema þeim sem verndaðar eru með lögum.

Í skh. er dulin þekking samsett af hugum allra innan hennar. Út úr reynslu hennar skapar skh. einstakan hóp tiltrúar og ætlana og með hliðsjón af þeim einangrar hún og skýrir hvernig hún sér heiminn og bregst við honum. Byggt á þessari tiltrú og ætlunum þróar skh. gildi, lögmál og aðferðir til verkframkvæmda. Þó svo samsettur hugur skh. sé að miklu leyti undirskilinn, ósagður eða tekinn sem sjálfsagður þá hefur hann mikil áhrif á samanlagða skynjun og hegðun þátttakenda. Mikilvægi dulinnar þekkingar er mjög mikið en hún er aðstæðnabundin, samansöfnuð og uppbyggð af hagnýtri reynslu og innbyggð í venjur og minni aðila skh. og sem er sú mynd þekkingar sem hefur mest gildi og erfiðast er að líkja eftir.

Til að skapa virði úr vitsmunalegri eign þarf að koma til skilningur á því hvernig þekking innan skh. er mótuð og hvernig fólk og skh. læra að nota þekkingu skynsamlega.